145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við gefum nú stjórnarmeirihlutanum færi á að sjá að sér enn einn ganginn þegar kemur að afturvirkum hækkunum til lífeyrisþega. Við erum búin að heyra ótrúlegar afsakanir úr ranni stjórnarliða við umfjöllun um þetta mál og röngum staðhæfingum er haldið fram æ ofan í æ. Það hefur verið sagt að lífeyrisþegar verði jafn settir um áramót. Það er ekki rétt. Það hefur verið sagt að við hækkun um áramót sé tekið tillit til þess að hækkanir hafi orðið hjá launafólki 1. maí. Það er ekki rétt. Það er engin innstæða fyrir andstöðu stjórnarliða í þessu máli önnur en eindreginn ásetningur þeirra um að lífeyrisþegar eigi að hafa lakari kjör en láglaunafólk. Sá ásetningur hefur verið staðfestur í ræðu hæstv. fjármálaráðherra og hann var staðfestur af formanni fjárlaganefndar hér í umræðu í gær. Það er hið alvarlega sem er að teiknast upp, að við búum við ríkisstjórn sem telur það sjálfstætt markmið að lífeyrisþegar hafi lakari kjör en fólk á lægstu launum. Í því felst pólitísk stefna. Hún er ekki geðfelld, hún er ekki réttlætanleg, hún byggist ekki á neinum rökum en hún hefur komið fram í máli stjórnarliða. Nú gefst öðrum stjórnarliðum, (Forseti hringir.) stjórnarþingmönnum öllum, tækifæri á að sýna hvort þeir ætli að vera í því liði eða í því liði sem vill standa vörð um það grundvallarsjónarmið að lífeyrisþegar njóti sama réttar og jafnréttis á við launafólk.