145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Margir hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið eins og kjör lífeyrisþega snúist um tilteknar prósentur og litið fram hjá þeim krónum og aurum sem þessir hópar hafa til ráðstöfunar. Það er staðreynd að stórir hópar meðal lífeyrisþega eru með gríðarlega lágar ráðstöfunartekjur, ráðstöfunartekjur undir 200 þús. kr. Það er alveg sama hvað við ræðum um prósentur af þeim upphæðum, þær eru áfram lágar. Það er líka staðreynd að þessir hópar hafa ekki valið sér hlutskipti sitt. Það velur sér ekki nokkur maður það hlutskipti að vera öryrki. Það velur sér enginn það hlutskipti að vera gamall þótt við viljum verða það, en við viljum líka geta lifað mannsæmandi lífi. Tillagan snýst um að þessir hópar fái afturvirkar hækkanir þannig að þeirra líf geti orðið betra. Það er um það sem þetta snýst. Og þó að fjárhæðirnar séu auðvitað háar hef ég oft séð alveg jafn háar fjárhæðir fara um þessa sali (Forseti hringir.) með nokkuð léttari hætti.

Ég segi já við þessari tillögu, herra forseti.