145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er góður gangur í íslensku efnahagslífi sem sést meðal annars í fjáraukalagafrumvarpinu þar sem tekjur ríkisins af viðskiptum með vörur og þjónustu aukast um 6,6 milljarða. Fólk hefur meira handa á milli vegna launahækkana og getur þess vegna leyft sér meira. En við sem erum kjaradómur lífeyrisþega ætlum ekki að leyfa þeim að taka þátt í þessu. Stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að nota þessa 6,6 milljarða sem eru nákvæmlega kostnaðurinn við tillögur okkar um greiðslur aftur í tímann, sambærilegar við þær sem þingmenn fá á kjaraleiðréttingu, til að bæta hag lífeyrisþega. Það að segja að lífeyrisþegar eigi að vera á lægri launum en lægstu laun jafngildir því að taka pólitíska ákvörðun um að skilja fátækustu eldri borgarana og örorkulífeyrisþegana eftir í fátækt og ójöfnuði. (Forseti hringir.) Við í stjórnarandstöðunni erum að reyna að koma í veg fyrir þetta og ég hvet þingmenn stjórnarmeirihlutans til að vinna gegn ójöfnuði og samþykkja tillögu okkar.