145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í umræðu um þetta mál tel ég það hið mesta óráð, enda runnið undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hugsun hugmyndafræði peningahyggjunnar. Alþingi er sett undir strangt fjármálaeftirlit en minna gefið fyrir mannréttindavinkilinn og lagalegar skuldbindingar í því efni, t.d. lög um réttindi sjúklinga og réttindi húsnæðislauss fólks. Þar verður ekkert eftirlit.

Minnist ég þess sem heilbrigðisráðherra sem starfaði undir eftirliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að aldrei var ég spurður um áhrif niðurskurðar á heilbrigðisstofnanir landsins, aðeins um mikilvægi niðurskurðar. Sá niðurskurður var ekki fyrst og fremst hugsaður af hálfu AGS til að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum heldur til að minnka umsvif samneyslu í velferðarsamfélagi og gera það til frambúðar. Þetta er í anda Viðskiptaráðs Íslands enda verður þar á bæ ástæða til að skála rækilega og fagna eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er þegar farinn að búa sig undir.