145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Pírata greiðir atkvæði með frumvarpinu. Mig langar sérstaklega að nefna og fagna lokamálslið 16. gr. sem fjallar um útgáfu talnagrunns fjárlagafrumvarps á tölvutæku sniði. Ég hef í nokkrum ræðum útskýrt hversu mikilvægt það er og komist þetta til framkvæmda fyrir birtingu næsta frumvarps til fjárlaga verð ég að segja að ég hlakka mikið til að vinna með þau gögn og geri ráð fyrir að þau muni enn fremur nýtast öðrum í samfélaginu til að hafa betri yfirsýn yfir það hvernig fjárlagavinnan stendur, hvað sé í frumvarpinu, hverju megi breyta og með hvaða afleiðingum. Ég fagna þessu mjög og þakka hv. fjárlaganefnd fyrir að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram á sínum tíma.