145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hana aðeins út í Ríkisútvarpið. Hér er verið að leggja til 175 millj. kr. skilyrt framlag og hún talar um 60 milljónir. Það er í rauninni sá hluti sem ríkissjóður ætlaði auðvitað að halda eftir af því að allt útvarpsgjaldið rennur í dag til Ríkisútvarpsins. Þetta hefði því átt að fara hvort sem er miðað við þau lög.

Ég ætlaði hins vegar ekki að ræða það, mig langar að ræða þessar 175 milljónir. Hefur þingmaðurinn spáð í þær? Ég hef aðeins áhyggjur af neikvæðu mörkuðu eigin fé Vegagerðarinnar, eins og við þekkjum. Þetta virðist vera lán í rauninni til Ríkisútvarpsins. Skilur þingmaðurinn það þannig að það þurfi að endurgreiðast eða færast með sama hætti og var og er hjá Vegagerðinni? Það kemur enginn önnur (Forseti hringir.) færsla. Hvernig færist þetta í ríkisbókhaldinu? Ég velti því fyrir mér af því að ég hef áhyggjur af því að þetta verði neikvætt gagnvart Ríkisútvarpinu á næsta ári aftur. Þetta er nefnilega umfram mörkuðu tekjurnar.