145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:25]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún talaði um að 1 milljarður færi til Landspítalans. Þegar breytingartillögurnar eru skoðaðar sést hins vegar að lagt er til að 1 milljarður fari á öldrunarstofnanir almennt. Ég vil biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir þetta. Það vantar húsnæði til að taka við öldruðum sem hafa verið á Landspítalanum. Við þekkjum það, en ég spyr: Til hvaða úrræða á að grípa á árinu 2016? Er það húsnæði til? Hvernig verður þessi vandi Landspítalans leystur? Er ekki rétt að eftir stendur sjálfstæð niðurskurðarkrafa upp á 1 milljarð vegna fleiri sjúklinga á árinu 2016?