145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skil ég þá hv. þingmann rétt þannig að það sé ætlun meiri hlutans að Ríkisútvarpið komi með niðurskurðartillögur, sem við vitum öll að hljóta að bitna á dýrustu liðunum sem eru þeir sem ég taldi upp áðan, þjónustu við börn, landsbyggðina og innlenda dagskrárgerð, og svo komi þjónustusamningur sem kveði á um að það skuli þjónusta börn, landsbyggðina og innlenda dagskrárgerð og meiri hlutinn sé tilbúinn að fjármagna hann þannig að þá komi aukafjárveitingar þegar þjónustusamningurinn er lagður fyrir þingið? Það væri gott að fá skýringu á þessu. Ég sé ekki fram á annað en að það blasi við að yfirstjórnin geti ekki brugðist við niðurskurðinum öðruvísi en að skera niður í þjónustu við börn, landsbyggð og innlenda dagskrárgerð því að þetta eru dýrustu þættirnir. Ef það verður sett sérstaklega í þjónustusamninginn á nýju ári, er þá meiri hlutinn tilbúinn að fjármagna það með viðbótarframlögum eftir áramót?