145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom að lokum með spurningu en annars voru þetta meira hugleiðingar. Auðvitað væri langbesta fyrirkomulagið hér á landi að RÚV væri bara með sérstaka fjárveitingu sem menntamálaráðherra og fjármálaráðherra ákvæðu hverju sinni miðað við umfang og samkvæmt lögum um stofnunina og ramma sem honum er sniðinn. Það verður að tryggja nægt fé til að sá rammi sé fylltur sem áætlað er að Ríkisútvarpið sinni. Ég sé líka fram á það þegar við erum komin aðeins lengra inn á betra tímabil fyrir ríkissjóð að hér verði öflugur sjóður fyrir alla til að sækja um. Þá er ég líka að tala um samkeppnisaðila Ríkisútvarpsins sem fá ekki ríkisframlög (Forseti hringir.) þannig að úthlutanir úr þessum sjóði verði á jafnréttisgrunni. Það eru hugleiðingar um það í nefndarálitinu sem ég bið þingmanninn um að skoða.