145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum hér komin í 3. umr. fjárlaga og margt gerðist á milli umræðna; óneitanlega er ekki hægt að segja annað en svo hafi verið. Ég ætla aðeins að stikla á nokkrum hlutum.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur skilaði minni hlutinn sameiginlegu nefndaráliti að þessu sinni og tók þar fram helstu atriði sem út af stóðu, eða fengu mesta umfjöllun við 2. umr. fjárlaga og eins í breytingartillögum okkar og í því sem kom til breytingar hjá meiri hlutanum.

Það er ekkert nýmæli, við höfum gagnrýnt lækkun skatta og gjalda mjög ítrekað og mikið og farið var yfir það í andsvörum. Skoðanir eru skiptar um það, pólitíkin er einu sinni þannig að við viljum nálgast hlutina með ólíkum hætti. Samt sem áður er talað um að ríkissjóður verði af nokkrum milljörðum vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið frá því kerfi sem var á síðasta kjörtímabili. Það er pólitískt val hægri manna að gera það og við erum því ósammála.

Því verður ekki leynt, þrátt fyrir það, að á milli ára er afkomubati hjá ríkissjóði lægri, í fyrsta skipti frá hruni, þegar við drögum þetta stöðugleikaframlag frá. Við teljum það ekki bera vott um skarpa og góða stjórn í ríkisfjármálum.

Við höfum farið yfir kjör aldraðra og öryrkja eðli máls samkvæmt. Það er stór og mikil ákvörðun sem verðskuldar alla þá athygli sem hún hefur fengið. Ég hef áhyggjur af því að breytingartillaga minni hlutans fyrir 3. umr. verði felld. Við gerum tillögu um aukið fé til umboðsmanns Alþingis, um bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, um lífeyristryggingar og um Landspítalann af því að við teljum ekki nóg að gert þar heldur.

Það viðbótarfé sem sett er í heilbrigðiskerfið, Landspítalann, bætir stöðuna og skiptir máli til að spítalinn geti komið bráðveiku fólki til aðstoðar en þurfi ekki að fylla rúmin af fólki sem þarf þjónustu eftir að hafa fengið sjúkahúsþjónustu, þannig að þetta vistast í raun á hjúkrunarheimilin. Það kemur Landspítalanum vissulega til góða og forstjórinn hefur eðli málsins samkvæmt lýst ánægju yfir þessum viðbótarfjárhæðum því að þær skipta máli.

Þjónustuþörfin er að aukast töluvert, tæplega 2% á milli ára, og það vantar í sjálfu sér fjármuni til að standa við það sem og launabætur sem ágreiningur er um á milli ríkissjóðs og Landspítalans, upp á einar 400 millj. kr., sem hlýtur að skipta verulega miklu máli. Ég tek undir það sem kemur fram í meirihlutaálitinu, því að fleiri stofnanir virðast vera í ágreiningi við fjármálaráðuneytið og ráðherra varðandi útreikninga forsendna. Þær launabætur sem forstöðumenn stofnana töldu sig eiga að fá virðast mjög víða ekki að öllu leyti skila sér að þeirra mati. Meiri hlutinn leggur til að það verði lagt fram á þann veg að fólk geti kynnt sér nægilega vel allar forsendur sem undir eru og að verklagið verði skoðað. Ég held að það sé af hinu góða að skerpa svolítið á því ef það er það sem virðist skipta máli í þessu.

Hér eru lagðar til 250 millj. kr. í viðhald á Landspítalanum. Það er upp í það sem þarf og er virðingarvert að það sé gert. En það er eins með það og annað að sjálfsagt er sjaldan nóg að gert. En ég held að Landspítalinn hafi fært mikil og góð rök fyrir kröfum sínum. Það hefur komið fram á fundum að þeir hafa tekið af rekstrarfé Landspítalans til að láta í viðhald, sem er ótækt. Þetta skiptir vissulega máli og ég held að það sé meðal annars afleiðing af því að við höfum rætt þessi mál ítarlega.

Við höfum aðeins haft áhyggjur af því, eftir nokkrar yfirferðir, að sjúkrahótelið við Árnúla nýtist ekki sjúklingum sem skyldi. Af því að meiri hlutinn leggur til að verklag sé skoðað varðandi launamálin þá held ég að það sé ágætt að fjárlaganefnd kynni sér þessa samninga. Mér fannst það alvarlegt, sem fram kom á þessum fundi, og þarfnast athugunar, ef það er þannig að þegar sjúklingur hefur lokið sjúkrahúsvist sinni og þarf að fá smáhvíld eða endurhæfingu þá geti hann fengið pláss í dag en svo ekki aftur fyrr en eftir viku, en þarf kannski á um það bil viku að halda til að koma sér af stað aftur og geta farið heim til sín. Það er óásættanlegt ef það er með þessum hætti, þá skilar það ekki því sem ég tel að það hefði átt að gera; en að mínu viti var skilningurinn sá að það ætti að vera þannig. Þetta er hluti af því að ekki eru settir fjármunir í þennan fráflæðisvanda svokallaða, en það breytir því ekki að það þarf að skoða þennan samning. Við erum með samning við þetta sjúkrahótel við Ármúla sem virðist ekki vera að ganga.

Við höfum mikið talað um Ríkisútvarpið eðli málsins samkvæmt, okkur er mjög annt um það. Ég varpaði fram spurningu áðan sem mér finnst nauðsynlegt að við reynum að fá svör við. Ég ræddi þetta aðeins við ráðherra bara til að árétta að mikilvægt sé að þetta verði ekki fært með sambærilegum hætti og gerst hefur hjá Vegagerðinni þegar hún hefur fengið fjármuni til tiltekinna framkvæmda, óháð sínum mörkuðu tekjum. Þá hefur það samt sem áður alltaf færst þannig, og er sem stendur í 18 milljarða neikvæðu bundnu eigin fé hjá Vegagerðinni. Ég hef áhyggjur af því að það sama gerist þarna, en ég vona, eftir samtöl mín og formanns fjárlaganefndar og hæstv. ráðherra, að það verði kvittað og klárt að þetta verði ekki gert á þennan hátt.

Útvarpsstjóri sagði okkur að skera þyrfti niður í kringum 400–500 millj. kr. á næsta ári fyrir það framlag sem hér er lagt til, sem auðvitað minnkar það eitthvað. Það breytir því ekki að fram undan er mikill niðurskurður; ég held að við sjáum alla vega ekki sambærilega dagskrá og við höfum verið að horfa á hingað til. Ég er ekki að halda því fram að eitthvað megi ekki missa sín, og að gott sé að skoða hlutina. En ég held að RÚV hafi gert hlutina mjög vel. Það sem er bagalegt í því máli öllu er að í apríl sl. komu yfirlýsingar frá ráðherra þess efnis að útvarpsgjaldið héldist óbreytt og áætlanir voru gerðar út frá því.

Nokkrum dögum fyrir áramótin þarf stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnendur að setjast niður og endurskipuleggja útvarpið að öllu leyti, hvernig það á yfir höfuð að starfa. Það má segja að þetta sé ákveðin stefnumótun yfirvaldsins inn í stofnunina að gera þetta svona. Ég lít þannig á það, á sama hátt og ég leit á framlagið til Háskólans á Akureyri við fjárlagagerðina í fyrra, sem var skilyrt, að hér séu fjármunir skilyrtir til kaupa utan ríkisútvarpsins. Ég sé það fyrir mér ef það á að auka það eins og líka er lagt til í meirihlutaálitinu. Mennta- og menningarmálaráðherra er beinlínis beðinn um það, þegar hann þarf að gera nýjan þjónustusamning um áramótin við Ríkisútvarpið, að hafa þar ákvæði um stighækkandi útboðsskyldu vegna dagskrárefnis á samningstímanum. Það þykir mér vægast sagt athyglisvert. Í raun er verið að segja að við ætlum ekki að nýta mannauðinn og starfsfólkið sem við höfum innan húss, tæki og tól og allt það, sem er hreint ágætt. Þess í stað ætlum við að beina þessu sem mest út fyrir Ríkisútvarpið. Það hefur verið töluvert um slík kaup en þetta er líka dýrasta efnið þannig að það hlýtur að verða afar erfitt fyrir Ríkisútvarpið að þurfa að draga verulega saman um svo stórar fjárhæðir þegar dýrasta efnið liggur ekki undir, eins og í þessu tilfelli. Ég hef áhyggjur af því að Ríkisútvarpið, ásjóna þess og erindi, verði með allt öðrum hætti; og ekki tekin umræða hér í þingsal um það beinlínis hvernig það eigi að vera heldur er enn og aftur verið að gera stórkostlegar innviðabreytingar í gegnum fjárlög. Og það er afar léleg stjórnun að gera slíkt.

Áður en ég hætti þá verð ég að segja það hér, með leyfi forseta, að í áliti meiri hlutans á bls. 5 — þá er verið að endurtaka það sem við sögðum við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 — kemur fram sú skoðun að fjárlaganefnd hafi ekki fengið viðunandi svör um rekstur félagsins og að ráðherranefnd um ríkisfjármál hafi ekki fengið viðunandi svör um rekstur félagsins sem var skilyrði þess að 181 millj. kr. fjárveiting yrði greidd til félagsins. Þetta er ekki rétt. Það kom svar frá fjármálaráðuneytinu um að Ríkisútvarpið hefði gert grein fyrir þessu. Ég get ekki tekið undir að þetta sé með þessum hætti.

Tíminn æðir frá manni. Ég ætla aðeins að fara í stöðugleikaframlögin af því að það er kannski einn af þessum stóru póstum sem við tökum hér inn á milli umræðna. Það er mikilvægt að halda því til haga að við höfum í kringum 42 milljarða til ráðstöfunar á næsta ári, árið 2016. Það er ekki meira af þessum stóru tölum sem hér hafa verið upplesnar. Það má ekki gleyma því að bankarnir, sem eru að koma hér inn undir ríkissjóð, verða tæplega seldir á næstu árum, að minnsta kosti ekki sá sem lendir alfarið í höndunum á ríkinu, þ.e. Íslandsbanki, enda mundi ekki nást viðunandi verð fyrir þá ef við færum að henda þeim öllum á markað. Því miður ætlar ríkisstjórnin að halda í það að selja 30% hlut sinn í Landsbankanum þrátt fyrir yfirlýsingar Framsóknarflokksins og ályktanir þeirra á landsfundi um að hann eigi að vera í samfélagseigu þannig að ég hef ekki trú á því að meira verði sett á markað, enda yrði það mjög óábyrgt.

Það kemur líka fram hér að lausasfé, sem nemur aðeins rúmlega 41 milljarði, verður til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir á næsta ári. Því er ekki gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs lækki á næsta ári fyrir utan að miðað er við að skuldabréf vegna endurfjármögnunar Seðlabankans verði greitt upp á árinu, og eftirstöðvar af því í árslok eru áætlaðar um 90 milljarðar. Þessir viðbótarfjármunir lækka vissulega þetta eina skuldabréf en ég held að enn sé gert ráð fyrir 6,7 milljarða afgangi af fjárlögum á þessu ári. Það breytist í raun ekki þrátt fyrir þær fjárhæðir sem hér um ræðir, sem hér er verið að taka inn, vegna stöðugleikaframlagsins.

Ég held að ég komist ekki yfir meira að þessu sinni, enda kannski ekki miklu hægt að breyta héðan í frá, geri ég ráð fyrir. Og ekki er hægt að fá ríkisstjórnarflokkana á okkar band til að taka þátt í þeim breytingartillögum sem við höfum lagt fram.