145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið farið ágætlega yfir nefndarálit minni hlutans í fyrri ræðum. Það eru nokkur atriði sem mig langar aðeins að skerpa á og einnig fjalla um það sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans. Ég er mjög ánægð að sjá hversu afdráttarlaus afstaða er tekin til þess að þeim framlögum sem koma vegna stöðugleikaframlagsins verði varið til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Þetta er ítrekað í nefndarálitinu og það er ánægjulegt að algjör samstaða sé um það.

Þetta er flókið mál. Ég verð að viðurkenna að þetta er mál sem ég skil ekki til hlítar. Það sem ég skil af því sýnist mér hafa verið vel unnið og vel hafa tekist til í öllu þessu máli. Það er ótrúlega jákvætt að við séum að ná að klára þetta á einhvern hátt, þótt auðvitað séu enn þá áskoranir fyrir hendi. Mér finnst þetta mjög góður áfangi og það koma tekjur inn í ríkissjóð vegna þessa og áhugavert að sjá að þegar tekjurnar eru skoðaðar erum við komin yfir 1.000 milljarða. Maður getur eiginlega ekki sagt þessa tölu því að maður skilur hana varla. Það munar nú um minna.

Við höfum mismunandi pólitískar skoðanir á því hvaða hlutverki Ríkisútvarpið á að gegna. Það sem ég vil gagnrýna er að mér finnst vera skorið of mikið niður til RÚV. Við gerum breytingartillögu sem miðar að því að halda útvarpsgjaldinu óbreyttu og verðbættu en meiri hlutinn bætir við það sem stendur í fjárlögunum, sem er að útvarpsgjaldið verði lækkað, 175 milljónum sem er tímabundið framlag til innlendrar dagskrárgerðar, sem skuli samt keypt af sjálfstæðum framleiðendum. Ég held að það sé mjög gott að Ríkisútvarpið fái peninga til þess að kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum. Ég hefði bara viljað sjá þetta sem aukafjármagn. Við höfum fengið stjórn RÚV og forsvarsmenn til fjárlaganefndar nokkrum sinnum og heyrt málflutning þeirra og kynnt okkur þessi mál mjög vel. Það er búið að koma rekstrinum í þokkalegt horf en RÚV er mjög skuldsett þótt það muni nú um minna, að geta greitt niður skuldirnar vegna sölu á lóðinni og eins leigu á hluta húsnæðisins. En ég vil standa vörð um öflugan almannamiðil sem hefur mjög mikilvægu menningarhlutverki að gegna. Það er ekki þar með sagt að ég sé endilega sátt við allt sem RÚV gerir og það væri óeðlilegt ef maður væri sáttur við allt, en þetta er umræða sem við verðum að taka. Ég mundi svo innilega vilja sjá að við værum ekki að skera niður til þessarar stofnunar og einhvern veginn hola hana að innan. Ég hef áhyggjur af því að það sé einhver pólitísk barátta sem veldur því að ákveðnir flokkar vilja veikja RÚV frekar en hitt. Mér finnst það ekki gott.

Það er ánægjulegt að sjá að minni hlutinn á þingi geti haft áhrif. Stundum finnst manni eins og það sé ekki tilfellið. Við höfum rætt mikið í minni hlutanum um Landspítalann og kallað eftir að forsvarsmenn Landspítalans mæti á okkar fund. Tvisvar á undanförnum mánuðum höfum við rætt málefni Landspítalans á fundi. Í seinna skiptið var fundurinn opinn, sem ég held að sé gott. Nú er verið að veita 250 millj. kr. í viðhald sem er mjög mikilvægt vegna þess að spítalinn hefur verið að taka af rekstrarfé sínu til að nota í viðhald þar sem viðhaldspeningarnir hafa ekki dugað til. Eins er verið að setja milljarð í að bæta svokallaðan fráflæðisvanda Landspítalans, sem er þegar fólk liggur inni á spítalanum sem á heima annars staðar en það eru engin önnur úrræði. Þá er það oft öldrunar- eða hjúkrunarheimili eða einhvers konar endurhæfing sem um ræðir. Þetta er mjög mikilvægt.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því að ekki sé nóg að gert. Ég vona að farið verði sem fyrst í þá úttekt sem á að fara fram á rekstri Landspítalans, sem settar hafa verið 30 milljónir í af fjárlögum næsta árs, og til þess fengið mjög hæft fólk. Ég vona að sú niðurstaða skili okkur einhverju þannig að við getum raunverulega farið að ræða málefni Landspítalans. Mér finnst við of oft ekki hafa nógu mikið af gögnum og staðreyndirnar ekki liggja fyrir, enda er þetta rekstur upp á 50 milljarða. Þetta er flókið.

Minni hlutinn leggur aftur fram breytingartillögu sem snýr að því að bæta kjör aldraðra og öryrkja og tryggja að bæturnar haldi í við lægstu launin. Núna þegar betur árar er mjög mikilvægt að allir njóti og það á, finnst mér, alltaf að vera verkefnið að reyna að lyfta þeim sem eru verst settir og verst hafa það, hvort sem um er að ræða lægstu laun eða bætur ættum við að lyfta því upp. Það er það sem skiptir máli.

Ég get alveg tekið undir það sem hefur verið fjallað um þegar menn ræða bæturnar í samhengi við lægstu laun. Mér finnst niðurstaðan úr þeirri umræðu vera sú að lægstu laun eru einfaldlega allt of lág. Þeir sem eru á lægstu laununum njóta kannski einhverra barnabóta eða vaxtabóta, það má vera þótt það sé ekki einu sinni víst ef þeir eru á leigumarkaði, en þeir fá ekki afslátt af einu né neinu og eru ekki í góðri stöðu. Það eru ákveðnir hópar þarna úti sem hafa það mjög slæmt og mér finnst við ekki ná utan um, t.d. meðlagsgreiðendur. Þannig að þetta leggjum við aftur fram og alltaf erum við vongóð um að það verði samþykkt. Það er enn smá tími til stefnu.

Það er líka mjög ánægjulegt að náðst hafi sátt um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna, eða kannski ekki sátt, það er frekar að menn séu að gera hér upp því að sveitarfélögin hafa kvartað mikið yfir því að fjárframlög hafi ekki fylgt með þessu verkefni. Ég vil vekja sérstaklega athygli á NPA eða notendastýrðri persónulegri aðstoð. Það verkefni virðist tekið út fyrir sviga og við erum ekki sátt við það. Þetta er aðeins eitt úrræði af mörgum og mjög mikilvægt að það standi til boða. Mér skilst að verið sé að vinna skýrslu um það mál sérstaklega og ég hlakka til að sjá þá skýrslu, vegna þess að ég á bágt með að trúa því sem sagt hefur verið um að þetta þjónustuform sé svo miklu dýrara en öll önnur. Ég vil þá fá að sjá það svart á hvítu. Ég hef áhyggjur af þessum 55 samningum, eða hvað það eru, því að það er ákveðin óvissa í gangi sem setur þá sem fá þjónustuna í mjög vonda stöðu. Það þarf að leysa úr því sem fyrst. Annað var það nú ekki.