145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir hjartanlegar hamingjuóskir til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem á afmæli í dag. Hitt er þó mála sannast að ég hefði óskað þess að hann hefði ekki haldið upp á afmælisdaginn með þeirri vondu ræðu sem hann hélt hér áðan þar sem hann fleygði handsprengju út um víðan völl þingheims og við munum sennilega þurfa lungann úr deginum til að hreinsa upp eftir hann.

Frú forseti. Ég er ekki alveg í sama jólaskapinu og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir. Vissulega má taka undir með henni að ýmislegt jákvætt hefur gerst á millum umræðna og ég fagna sérstaklega því að það skuli koma fjármagn til frumkvæðisathugana umboðsmanns Alþingis. Staðreyndin er sú, sem mjög fáir hafa tekið eftir hér eftir að mesti gassinn og funinn var úr þingumræðu síðustu daga, að með mikilli kyrrð hafa gengið í gegnum Alþingi í dag og í gær tvær breytingar á skattkerfinu sem hafa það í för með sér að það er verið að flytja samtals 10 milljarða kr. í skattalækkunum til fólks sem hægt er að skilgreina sem hátekjufólk. Fólk sem ekki þarf á því að halda. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að þetta er meira en þarf til að koma til móts við sanngjarnar óskir aldraðra og öryrkja um að þeir fái líka afturvirkar hækkanir á sínum bótum. Það kostar 6,5 milljarða. Ríkisstjórnin hefur hér með lævi og allt of miklum friði flutt 10 milljarða til þeirra sem ekki þurfa á því að halda á meðan aldraðir og öryrkja fá að éta það sem úti frýs. Þetta veldur því að ég er ekki í sama jólaskapinu. Ég vildi einungis gera þessa athugasemd en ég hef enga sérstaka spurningu til hv. þingmannsins, en svona líður mér í aðdraganda jóla.