145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:46]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að viðkvæmt hjarta hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sé ekki í jólaskapinu í dag. En ég verð að taka undir þær áhyggjur og bölsýni í raun sem kom fram í orðum hv. þingmanns. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur að verið sé að gera breytingar á skattkerfinu sem koma betur stæðu fólki í samfélaginu í dag best. Ég held að fjölmargar kannanir hafi sýnt fram á að Íslendingar vilja hafa velferðarsamfélag þar sem tekið er föstum tökum bæði samfélagsleg þjónusta, Landspítalinn og því um líkt.

Samfélagsleg þjónusta og velferðarsamfélag þýðir náttúrlega að við komum fram við „bótaþega“ — ég hef það innan gæsalappa því að ég vil ekki kalla þá bótaþega, mér finnst þetta bara vera launafólk sem er á annarri tegund af launum. Mér finnst orðið bætur ekki fallegt. Við eigum náttúrlega að koma fram við þetta fólk á sama hátt og annað fólk. Það á ekki að vera í einhverjum öðrum flokki eða koma fram við það á annan hátt.

Hins vegar má spyrja sig við hverju öðru sé að búast. Við búum náttúrlega í samfélagi þar sem hæstv. ríkisstjórn er mjög hægri sinnuð og trúir mikið á brauðmolakenninguna. En svona er það, velsæld brauðmolast ekki niður.