145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. — hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þótt hann megi líka vera hæstvirtur fyrir mér. Svona er staðan og ég held að það hafi sýnt sig trekk í trekk á hinu háa Alþingi undanfarna þrjá vetur að hér er ekki almennt lýðræði heldur meirihlutaræði og jafnvel leiðtogaræði þar sem ákveðnir leiðtogar ákveðinna flokka ráða þeirri hugmyndafræði sem undirmenn þeirra eða hv. þingmenn eiga að fylgja.

Það hefur komið fram í umræðum á þinginu að brauðmolakenningin, sem jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri stofnanir hafa afneitað, er í hávegum höfð í alla vega Sjálfstæðisflokknum og gott ef ekki Framsóknarflokknum líka. En velferð er eitthvað sem við sköpum. Hún er ekki eitthvað sem verður til. Við þurfum að taka meðvitaða ákvörðun um að við ætlum að skapa velferð í samfélaginu og það þýðir að við þurfum að taka ákvarðanir meðal annars um að eyða ákveðnum fjármunum í að búa þessa velferð til. Ég held að margir eigi sér þann draum heitastan að hún verði til af sjálfu sér en það er ekki raunin, velferð er miklu flóknari en það.

Ég vona að í næstu kosningum munum við fá einhverja flokka á þing sem hafa meiri áhuga á því að búa til gott velferðarsamfélag en þeir sem sitja hér nú.