145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrra andsvari mínu spyrja hv. þingmann út í tillögu meiri hlutans varðandi Ríkisútvarpið. Hv. formaður fjárlaganefndar talaði hér fyrr í umræðunni og mér sýnist skilningur formanns og varaformanns ekki vera sami á þessu framlagi. Þess vegna vil ég spyrja nánar út í það.

Í nefndaráliti meiri hluta kemur fram að ekki er lögð fram breyting á útvarpsgjaldinu heldur er framlag úr ríkissjóði að ræða, þ.e. 175 millj. kr. sem Ríkisútvarpið fær, og framlaginu skuli verja til að auka kaup Ríkisútvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og á árinu 2015 hafi verið varið 450 millj. kr. í þennan lið hjá RÚV. Og síðan stendur „… og gert er ráð fyrir að sú fjárhæð verði 625 millj. kr. á næsta ári.“

Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að við vitum að Ríkisútvarpið þarf að gera nýjar áætlanir vegna þess að útvarpsgjaldið lækkar, en gömlu áætlanirnar höfðu byggst á óbreyttu útvarpsgjaldi. Við vitum að fara þarf inn í alla liði og skera niður og innlenda efnið er dýrast. Er meiri hlutinn að segja að ekki megi hreyfa við þeim lið, þ.e. því framlagi sem hefur verið varið á árinu 2015 til að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis, það verði að vera 450 millj. kr. plús þessar 175? Þannig að niðurskurðurinn verði þá að vera annars staðar í stofnuninni til þess að bregðast við lægra útvarpsgjaldi.