145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Skilningur varaformanns fjárlaganefndar og útskýringar eru þá þannig að stjórnendur Ríkisútvarpsins mega ekki bregðast við lægra útvarpsgjaldi með því að hreyfa við þeim 450 milljónum sem eiga að fara til að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum, heldur verða þeir að skera niður innan húss, þeir mega ekki skera niður framlögin sem fara í það að kaupa af sjálfstæðum framleiðendum hérlendis. Ég skil hv. varaformann fjárlaganefndar þannig. Það stangast á við það sem formaður fjárlaganefndar sagði áðan því að þarna er náttúrlega greinilega verið að segja stjórnendum Ríkisútvarpsins til, hvernig þeir eigi að skera niður og hvernig þeir eigi að haga sínum málum.

Annað mál. Hv. þingmaður talar mikið fyrir langtímaáætlunargerð þar sem tekið er tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar o.s.frv. og stórum fjárfestingum sem við stöndum frammi fyrir. Ég er sammála honum í því að það þurfi að gera og horfa til lengri tíma en við höfum verið að gera nú þegar. Eitt af því er kostnaður við heilbrigðiskerfið vegna öldrunar þjóðarinnar. Það hefur komið fram bæði í fjölmiðlum og á fundum fjárlaganefndar að Landspítalinn glímir við það að finna út úr því hvernig hann eigi að geta þjónustað fleiri sjúklinga sem eru fyrst og fremst til komnir vegna þess að þjóðin er að eldast og öldruðum fjölgar. Það vandamál er ekki leyst með tillögu meiri hlutans og ég spyr hv. þingmann hvort það megi ekki líta svoleiðis á að þar sem ekki kemur fram aukaframlag í rekstur til að mæta þessum vanda þá sé verið í blússandi góðærinu að gera kröfu á niðurskurð um milljarð á Landspítalanum?