145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari höfum við hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki tækifæri til þess að takast á um allt það sem hv. þingmaður ræddi. Við munum finna aðra tíma í það og ég efast ekki um að það verði gert. Ég vil segja að þegar hv. þingmaður talar um niðurskurðinn eða sparnaðinn á síðasta kjörtímabili er alveg hárrétt að það var fyrst og fremst í fjárfestingum. Það sem ég er hins vegar að vísa til er svar sem ég fékk við fyrirspurn minni sem ég beindi til þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, og síðan heimildir úr ríkisreikningi. Það er það sem ég er að vísa til þegar ég er að benda á þetta og tek það bara beint úr svarinu. Annars vegar er þetta spurning um ríkisreksturinn og spyr ég um þróun ríkisstarfsmanna. Af þeim 751, þegar allt er tekið með í A-hlutanum, voru 508 í heilbrigðiskerfinu og 102 í dómsmálaráðuneytinu, þ.e. fækkunin. Síðan var fjölgun til dæmis í umhverfisráðuneytinu um 39 og sömuleiðis fjölgun í utanríkisráðuneytinu, að vísu aðeins um einn, en mér fannst það skjóta skökku við miðað við þetta verkefni sem menn voru að takast á við. Það var líka fjölgun í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Þetta er það sem ég er að vísa í, þessi opinberu gögn. Ég hef engar aðrar upplýsingar. Ég held að ríkisreikningur sé alveg réttur, ég vísa í tölur þar. Það var þó ekki fjöldi starfsmanna heldur þróunin hjá einstaka stofnunum og ég hef gert það áður en get náttúrlega ekki gert það núna. Ég hef engin betri gögn en þessi opinberu gögn. Ég get ekki annað en treyst þeim.