145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg sjálfsagt að við förum yfir þessar tölur. Ef það er eitthvað rangt í málflutningi mínum vil ég endilega leiðrétta það. Ég tel svo ekki vera. Ég er búinn að leggjast yfir þessar tölur. Reyndar eru hlutfallstölurnar sem ég hef stuðst við miklu hærri, kveða á um meiri niðurskurð en þarna kemur fram, svo er spurningin hvaða árabil við erum að nota. Það kemur náttúrlega líka inn í dæmið. En eins og við erum greinilega sammála um var niðurskurðurinn mestur í fjárfestingum, í samgöngumálunum sérstaklega. Hvers vegna? Við vildum hlífa velferðarþjónustunni eins og nokkur kostur væri. Mest vildum við hlífa almannatryggingum, þ.e. veikustu hópunum sem eiga allt sitt undir því að fá framfærslu í gegnum almannatryggingakerfið.