145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að bregðast við orðum hv. þingmanns varðandi Ríkisútvarpið. Það sem vekur furðu mína við þetta framlag, upp á 175 millj. kr., til eflingar framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni og innlendri dagskrárgerð er af hverju menn fara ekki bara nákvæmlega í sömu tölu og var fyrir einu ári þegar sérstakt framlag, upp á 182 milljónir, var sett fram til að mæta einhverjum tilteknum skilyrðum um rekstur Ríkisútvarpsins í það sinnið.

Það sem hér er á ferðinni er auðvitað sama atburðarás og þá. Það er verið að skammta Ríkisútvarpinu fé úr hnefa sem er ekkert annað en fjárhagsleg spennitreyja. Það er einhvers konar skilyrðing af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar að gera þetta með þessum hætti. Ég velti líka fyrir mér af hverju menn fara ekki bara alla leið og setja fram þá kröfu að Hrafni Gunnlaugssyni verði falið að búa til heimildamynd um varðveislu hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á bryggjukanti í Reykjavík til að menn séu búnir að ákveða það fyrir fram í hvað á að nota þessa peninga.

Það er bundið í þjónustusamning Ríkisútvarpsins að að minnsta kosti 10% af fjármagni skuli varið í kaup á innlendu sjónvarpsefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Til hvers er stjórn Ríkisútvarpsins, spyr ég, ef þetta á að teljast eðlilegt með þessum hætti. Auðvitað er það þannig að hér er ekki verið að mæta nándar nærri þeirri fjárþörf sem er hjá Ríkisútvarpinu. Ætli Ríkisútvarpið sé ekki meira og minna svona að helmingi til launin? Og ætli kostnaður vegna launahækkana einn og sér á árinu sé ekki yfir 300 milljónir? Þannig að hér vantar mikið upp á og hér er verið að skipta sér með mjög freklegum hætti af dagskrárgerð, af eðli og inntaki stofnunarinnar, af hálfu fjárveitingavaldsins.