145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum alveg sammála um að það er nauðsynlegt að menn ræði hinar breiðu línur hér á þinginu þegar kemur að stofnunum samfélagsins eins og Ríkisútvarpinu. Það er enginn efi um það í mínum huga. En það á að fara fram í þessum sal, í formi umræðu, í formi þess að ráðherra kemur hér með þjónustusamninginn, kemur með skýrslu og við tökum hér „debat“ um það hvernig við viljum hafa þessa hluti.

En þröng, einstök fyrirmæli um það hvaða teikningar skuli miðað við þegar byggt er á Alþingisreitnum eða hvaða fjármagn nákvæmlega frá ári til árs, sem er svona viðbótarslumpur til hinna og þessara verkefna af hálfu fjárlaganefndar — ég tala nú ekki um þegar menn skoða sögu þeirra hótana sem stofnunin, Ríkisútvarpið, hefur mátt sitja undir af hálfu formanns fjárlaganefndar — eru algerlega ótæk í mínum huga.