145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera hér tvö atriði að umtalsefni því að ég vil ekki lengja þessa umræðu um of.

Annars vegar hlýt ég að fagna því að tekist hafi samkomulag um útfærslu á málaflokki fatlaðra og kostnaði vegna þjónustu við fatlað fólk hjá sveitarfélögum. Vegna þess sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hér áðan er rétt að minna á að það voru engar vanáætlanir í gangi við yfirfærslu á málaflokknum. Hann var í sjálfu sér fluttur lítt sem ekkert skertur þrátt fyrir niðurskurð á síðasta kjörtímabili yfir til sveitarfélaganna. Á tveggja ára tímabili fyrir yfirfærsluna hafði þjónusta við fatlað fólk einungis sætt 2,6% niðurskurði vegna þess að málaflokknum hafði sérstaklega verið hlíft við niðurskurði. Síðan var útbúið það ferli að í kjölfar yfirfærslunnar væri farið yfir hver raunkostnaðurinn yrði nákvæmlega. Við komum því málaflokknum í skjól undan niðurskurðarkröfu með því að flytja hann yfir til sveitarfélaga. Það er ánægjuefni að það hafi tekist og hrósvert fyrir ríkisstjórnina að hún hafi sest yfir það með sveitarfélögunum að finna út hinn raunverulega kostnað. Ég held að viðbótarfjármagnið sem þörf var á hafi verið innan skekkjumarka miðað við það sem menn gerðu ráð fyrir í upphafi og þarna hafi tekist ágætlega vel til.

Mig langar hins vegar aðeins að víkja nokkrum orðum að Ríkisútvarpinu. Ég hef áhyggjur af stöðu þess í kjölfar síðustu frétta. Mér finnst áhyggjuefni að þingið skuli annað árið í röð draga Ríkisútvarpið á skýrum svörum um rekstrarforsendur komandi árs fram á síðustu daga þings. Það er ekki hægt að fara fram á það við nokkurn mann að reka stofnun með þeim hætti að menn viti ekki hverjar rekstrarforsendurnar séu fyrr en nokkrum dögum fyrir jól. Stofnunin er búin að vinna eftir forsendum fyrirheits um óbreytt útvarpsgjald frá því í apríl. Svo kemur í ljós að þær forsendur standast ekki.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra hefur sagt um að það standi til að koma inn í þingið með þjónustusamning og við getum rætt hann í þinginu. Ég vil fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvað felst í því. Mér finnst blasa við miðað við þá stöðu sem upp er komin að það takist að nokkru leyti að verja innlenda dagskrárgerð í ljósi þessa 170 milljóna viðbótarframlags sem nú kemur inn og þar af leiðandi þurfum við ekki að sjá mjög mikinn niðurskurð þar. Við munum þó þurfa að sjá að niðurskurðarkröfunni verði mætt á öðrum sviðum. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa sagt að hér sé um að ræða bil á milli 175 milljóna og 400 milljóna, sem er samkvæmt mínum kokkabókum rúmlega 200 milljónir sem þarf þá að skera niður.

Mér þykir einsýnt að niðurskurðarhnífurinn muni bitna á því sem okkur þykir mest um vert að Ríkisútvarpið sinni, sem er þjónusta við landsbyggðina, innlend dagskrárgerð að einhverju leyti og þjónusta við börn. Ég veit að við deilum þeirri skoðun, hæstv. menntamálaráðherra og ég, vegna þess að við höfum oft rætt að þetta séu þættir sem skipta miklu, sérstaklega þjónusta við börn, á tímum þegar íslenska á undir högg að sækja sem aldrei fyrr.

Ég vil aðeins ræða við hæstv. ráðherra um hvernig hann sjái fyrir sér að þessi samstarfssamningur komi inn í þingið. Verður það þannig að fjárhagsramminn, sem hér er búið að marka, verði ytri mörk þess sem þingið megi fara fram á af Ríkisútvarpinu eða verður það þannig að þingið megi lista upp forgangsverkefnin og svo verði stjórnarmeirihlutinn tilbúinn að fjármagna það í framhaldinu? Þetta er grundvallarspurning. Er það þannig að við þurfum að koma með óskalista innan þess þrönga fjárhagsramma sem hér hefur verið markaður eða er mögulegt að nálgast málið út frá því að við listum upp forgangsverkefni?

Í mínum huga eru forgangsverkefnin algerlega ljós. Þau eru varðstaða um menningararfinn, þ.e. tryggja að Rás 1 geti gegnt hlutverki sínu, tryggja að Rás 2 geti haldið áfram að vera vagga íslenskrar tónlistar sem að hún hefur verið og stutt við þau miklu útflutningsverðmæti sem við búum við í íslenskri dægurtónlist, tryggja að ríkissjónvarpið geti sýnt okkur íslenskt efni, geti mætt þörfum barna og fréttaflutningur sé ekki bundinn við höfuðborgarsvæðið heldur virki hann vítt og breitt um landið. Ég er alveg til í að taka þátt í vinnu á vettvangi þingsins og umræðu um samstarfssamning sem felur í sér að við getum útfært þessar skyldur. Þá þurfa menn líka að vera tilbúnir að fjármagna þær.

Ég hef verulegar áhyggjur af því fordæmi sem hefur verið skapað með því grundvallarbroti á lýðræðislegum leikreglum sem átti sér stað við afgreiðslu fjárlaganefndar á fjárþörf Ríkisútvarpsins. Ég óska eftir því líka og vil segja það hér opinberlega að mér finnst fullkomlega eðlilegt að við í stjórnarandstöðunni komum því á framfæri við alþjóðlega eftirlitsaðila með lýðræðislegum stjórnarháttum, svo sem á vegum Evrópuráðsins, með hvaða hætti stjórnarmeirihlutinn hefur misbeitt valdi sínu gagnvart Ríkisútvarpinu trekk í trekk eftir hótanir úr ranni frammámanna í stjórnarmeirihlutanum í garð Ríkisútvarpsins. Það er fullkomin ástæða til þess að vekja athygli alþjóðastofnana á því að núverandi ríkisstjórn er komin á mjög hálan ís gagnvart því sem kallast geta lýðræðislegir stjórnarhættir. (Gripið fram í.)