145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum skýringum hæstv. ráðherra. Fyrst varðandi þjónustusamninginn. Ég lít þá þannig á að við getum í sjálfu sér rætt hér um þessi verkefni og hann skýrir að það þurfi þá auðvitað að fjármagna þau í framhaldinu og mikilvægt að við gerum það og ræðum af viti og væntumþykju í þingsal um almannaútvarp sem þjóðin á.

Hitt sem mér þykir líka mikils virði að heyra eru ummælin í greinargerðinni. Ég deili áhuga hæstv. ráðherra á því að alveg eins og Rás 2 styður við tónlist og tónlistarsköpun þá styðji ríkissjónvarpið við sjálfstæða kvikmyndagerð og sé mikilvægur kaupandi þar. Það er hið besta mál.

Ég skil orð ráðherrans þannig að í þessari greinargerð felist engin holun að innan, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði áhyggjur af áðan, heldur sé þetta í sjálfu sér bara vísan til þeirra stefnumörkunar að það sé ákveðinn hluti sem gangi til innlendrar dagskárgerðar. Það má þá líka segja að eftir stendur samt að stofnunin þarf að skera allverulega niður. Hættan er sú að það sem fyrst verður fyrir skurðarhnífnum, og ég vil biðja ráðherrann um að svara því í seinna andsvari, sé það sem okkur þykir mest um vert; þjónusta við börn og landsbyggð.

Hvernig getum við brugðist við því? Það er auðvitað það sem er kostnaðarsamast og erfiðast við að eiga. Hvernig bregðumst við við því þangað til að við getum klárað í samstarfssamningnum nýjar skyldur að því leyti sem við þá fjármögnum til viðbótar?