145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki í stuttu andsvari bregðast nákvæmlega við þessari efnismiklu spurningu hv. þingmanns en ég vil nefna eitt sem mér finnst skipta svolitlu máli í umræðunni. Fjárlögin 2015 gerðu ráð fyrir ríkisframlagi upp á 3.663 milljónir. Skoðum hvernig þetta mun líta út á næsta ári fyrir Ríkisútvarpið. Á næsta ári þegar við erum búin að bæta við þeim 175 milljónum sem við erum með til umræðu ásamt þeim 60 milljónum sem koma væntanlega vegna fleiri greiðenda þá fer framlagið upp í 3.725 milljónir. Það verður því hækkun milli ára. Við þá hækkun bætist síðan sú staðreynd að með því að Ríkisútvarpið gat komið í verðmæti lóð og byggingarrétti þar má reikna með að að lágmarki komi 1,5 milljarðar til Ríkisútvarpsins sem fer þá til að greiða niður skuldir, jafnvel meira, jafnvel eru einhvers staðar hærri tölur um það. Það þýðir að á ársgrundvelli lækka vaxtagreiðslur Ríkisútvarpsins um 90 milljónir, sem nýtist til dagskrárgerðar.

Eins og ég sagði áðan er ekki hægt og hvorki sanngjarnt né málefnalegt að koma hér og segja að verið sé að skera niður til Ríkisútvarpsins frá því sem var á þessu ári. Aftur á móti er alveg rétt að útvarpsgjaldið lækkar úr 17.800 í 16.400 kr., en þessar aðgerðir koma þarna á móti. Það verður áframhaldandi verkefni fyrir þingið að ræða hvernig menn vilja standa að þessu hér í framhaldinu, en í það minnsta hvað varðar næsta rekstrarár er þetta staðan.

Ég tek fram að það eru ekki að fullu komin fram áhrifin af þessari skuldalækkun en ég veit að hún er komin fram að hluta, þá er ég að tala um þessar 90 milljónir. En ég held að það sé miklu meiri samhljómur í þinginu um mikilvægi Ríkisútvarpsins en stundum kemur fram í umræðu, alveg sérstaklega mikilvægi menningarþáttarins. Ég held að hann sé sá þáttur sem hefur farið mjög vaxandi hér á undanförnum missirum og árum, mikilvægi hans. (Forseti hringir.) Þá er ég einmitt að hugsa um barnaefnið, menningu þjóðarinnar og sögu og alla þá þætti sem við í lögum felum Ríkisútvarpinu að sinna.