145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta var óheppilegt fordæmi. Það var hins vegar ekki síðasta ríkisstjórn sem setti það heldur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sem sat hér haustið 2008 þegar allt hrundi og þá var hv. þingmaður fylgismaður þeirrar ríkisstjórnar. Þá var ákveðið að taka þessa mörkun úr sambandi og hún hélt áfram þar til sú sem hér stendur lagði til að því yrði breytt og útvarpsgjaldið látið renna óskert til Ríkisútvarpsins.

Ég hefði persónulega viljað, og lýsti því sjálf ítrekað, að það hefði gengið fyrr í gegn. Það átti að taka gildi 1. janúar 2014 og því var svo frestað af þeirri ríkisstjórn sem nú situr en nú rennur það óskert til útvarpsins. Ég er sammála því að þetta var ekki heppilegt fordæmi. Hins vegar voru ákveðin neyðarrök hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sem sat í hruninu 2008 að leita allra leiða vegna þess neyðarástands sem ríkti í ríkisfjármálum. Af þeim sökum hef ég sagt að ég sýni því fullan skilning að þetta hafi verið ákveðið, en það var sú ríkisstjórn sem tók þá ákvörðun. (Menntmrh.: En hún hélt.) Og hún hélt þar til því var breytt af þeirri sem hér stendur og þeim meiri hluta sem hana studdi, þar á meðal þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sumir hverjir lögðust gegn þeirri ákvörðun á síðasta kjörtímabili en þó ekki allir.

Niðurstaðan 2007 og 2013 var að hið rétta prinsipp væri að útvarpsgjaldið ætti að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins og að við ættum ekki að vera hér að útdeila fjármunum sérstaklega á fjárlögum til Ríkisútvarpsins. Þar sem það hefur verið gert hefur það yfirleitt ekki reynst vel, ekki frekar en hér.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar haustið 2008 má rökstyðja með ákveðnum neyðarsjónarmiðum en þegar við tókum hér alvöruumræðu um Ríkisútvarpið 2007 og 2013 varð niðurstaða meiri hluta þingsins í báðum tilvikum að það væri rétta leiðin. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að sú pólitík að hér sé verið að úthluta fjármunum að lokum til Ríkisútvarpsins á síðustu metrunum vegna þess að útvarpsgjaldið stendur ekki undir rekstrinum verði brátt liðin tíð.