145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef svolítið samviskubit. Það stafar af tvennu. Ég hef samviskubit yfir því að hafa styggt hans kyrra geð á afmælisdeginum en ég átti ekki annarra kosta völ eftir ræðu hans þar sem hann grýtti handsprengjum hér út um víðan völl. Svo öllu sé til haga haldið hafði ég líka samviskubit yfir því þegar ég horfði til baka að á sínum tíma þegar við fórum í niðurskurð gagnvart Landspítalanum var það gert undir þeim merkjum að það ætti ekki að leiða til nokkurra uppsagna hjá neinum starfsmönnum þar. Það átti að taka það í gegnum starfsmannaveltuna. Þegar upp var staðið kom í ljós að því miður var þeim sem síst skyldi, þeim sem voru kannski lægst settir þar, fólki sem starfaði að ræstingum og slíku, sagt upp eins og við höfum áður rætt um. Það var hlutur sem ekki átti að gera og ég sé eftir því, ég hef samviskubit yfir því. En yfir öðru hef ég ekki samviskubit.

Það er tóm vitleysa sem hv. þingmaður heldur fram að það hafi verið stóraukið fjármagn í utanríkisráðuneyti í minni tíð. Þvert á móti var það þannig, eins og hægt er að lesa út úr svörum við ýmsum fyrirspurnum, að þar voru sendiráð skræld inn að beini, sendiráð og sendiskrifstofur lagðar niður. Það sem hv. þingmaður er að tala um og er auðvitað trúaratriði hjá honum er ESB-umsóknin. Það er alveg rétt hjá honum að hún kostaði peninga. En hins vegar er það staðreynd að ESB-umsóknin sparaði Íslendingum tugi milljarða. Það var vegna þess að við urðum umsóknarríki sem tókst að koma í veg fyrir að hér væri sett á okkur viðskiptabann sem hefði leitt til þess að við hefðum ekki getað flutt út sjávarafurðir, þannig að sennilega var það hagkvæmasta og arðbærasta aðgerðin sem farið var í á síðasta kjörtímabili. Það var fjárfesting sem skilaði sér sennilega tvítugfalt.