145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu, enda hef ég flutt hana hér áður. En aðeins til að það sé skráð í þingtíðindin og leiðrétt þá var í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar séð til þess og reynt að sjá til þess að lægst launaða fólkinu í heilbrigðisþjónustunni yrði ekki sagt upp störfum og reyndar yrði það látið gilda almennt í velferðarþjónustunni, fólki yrði ekki sagt upp störfum. Þegar það gerist síðan að það glatast um 500-600 störf á Landspítalanum og víðar í heilbrigðisþjónustunni gerist það að uppistöðu til í gegnum starfsmannaveltu. Á gríðarlega stórum vinnustöðum er þetta náttúrlega nokkuð sem gerist, fólk hættir störfum og þegar ekki er ráðið í staðinn fækkar störfum. Það var bagalegt hve mikið þetta var en það á við um alla starfsmenn, hátt launaða og lágt launaða og ekki síst þá sem voru á lágum launum, að það var reynt að koma í veg fyrir uppsagnir hjá þeim. Ég hygg að það hafi gengið eftir.

Síðan vil ég segja um áherslur í utanríkismálum að ég hef viljað draga úr framlögum til NATO. Við verjum allt of miklum fjármunum til NATO. Við verjum allt of miklum fjármunum í Evrópusambandið og stofnanir þeim tengdum og menn hafa verið að bæta í í Brussel. En ég fagna því alveg sérstaklega að nú skuli ráðist í að stofna sendiráð í Srassborg. Það er mannréttindahöfuðborgin. Þó að það hafi verið gert í sparnaðarskyni í tíð síðustu ríkisstjórnar að draga úr framlögum okkar til þessarar höfuðborgar mannréttindanna í Strassborg er það mjög góð ákvörðun sem nú er verið að taka að bæta því við. Við erum eina aðildarríkið að Evrópuráðinu sem hefur ekki sendiskrifstofu í Strassborg. Það á að vera ein af þungamiðjunum í íslenskri utanríkisstefnu að hafa framlag okkar á sviði mannréttindamála sem allra öflugast. Ég er því ánægður með að þetta skuli vera gert.