145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að tillögur ríkisstjórnarinnar komu of seint inn í þingið. En það breytir því svo sem ekki að það hefði ekki þurft að hafa þau áhrif að umræðan yrði 100 klukkustunda löng. Það er meira spurning um samkomulag.

Það er með svo margt hér í þinginu að við getum skrifað okkur frá hlutum endalaust og sett reglur og skrifað inn í þingsköpin hvernig hlutirnir eigi að ganga fram, en þegar allt kemur til alls þá er það viljinn til að halda utan um ákveðna hluti eins og þessa sem ræður úrslitum. Ég hygg að við séum sammála um það.

Ég ætla ekkert að neita því að gögn komu of seint, tillögur komu of seint, en við þurfum eitthvað að breyta verklaginu. Ég nefni hér sem dæmi atkvæðaskýringar við 2. umr. Ég held að þingflokkarnir ættu að tala sig betur saman um það fyrir atkvæðagreiðsluna þannig að atkvæðagreiðslan taki ekki átta klukkutíma eða sex, sjö klukkutíma eins og hún gerði að þessu sinni. Það er algjörlega óeðlilegt og það er óþarfi.

Að öðru leyti þá segi ég um ríkisfjármálin, aftur varðandi uppgreiðslu skulda: Við stöndum frammi fyrir tækifæri til að breyta rétt og mín skoðun er sú, og ég mun tala fyrir því áfram, að Íslendingar eigi möguleika á því innan tíu ára að verða með engar hreinar skuldir. Engar. Það eru ríki innan OECD sem eru á þeim slóðum og við getum horft til þeirra.

En það er einfaldlega þannig að ef við nýtum þetta tækifæri, höldum striki, þá getum við komist í þá stöðu. Engar hreinar skuldir og ef við bætum því við að vera með viðvarandi viðskiptajöfnuð þá mun allt ganga okkur í haginn, (Forseti hringir.) svo lengi sem vinnumarkaðurinn styður við þá ábyrgu fjármálastjórn.