145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála áherslunni á að Ísland verði skuldlaust land. Við í Samfylkingunni höfðum þetta kjörorð fyrir síðustu kosningar: Breytum vöxtum í velferð. Það er mjög mikilvægt að Ísland sé skuldlítið eða skuldlaust.

Varðandi vinnumarkaðinn og vinnubrögðin hér í þinginu þá er það alveg rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að við getum ekkert skrifað okkur með einhverju formi frá vandræðum. Hluti af því sem hefur klikkað á þessu kjörtímabili er samtal. Það hefur ekkert samtal átt sér stað. Við bíðum hér í stjórnarandstöðunni og svo fáum við tilkynningar seint og um síðir. Það er ekkert samtal á undirbúningsstigi milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Ég held að það sé hluti af vandamálinu. Það verður ekki sú samfella sem þyrfti að vera sem dregur úr viðsjám og eykur skilning milli manna.

Það sama á við um vinnumarkaðinn. Það verður ekki þessi sameiginlegi skilningur á nauðsynlegum grundvallarforsendum. Ég held að vinnumarkaðurinn skilji mjög vel hvað þurfi að forðast og hvaða hættur felist í því að óráðsía sé í ríkisfjármálum og launaþróun fari umfram það sem vöxtur þjóðarframleiðslunnar gefi tilefni til o.s.frv.

En samtalið þarf að eiga sér stað því að annars festast menn í aðstæðum sem þeir ráða ekki við, hversu góður sem vilji þeirra er. Ég held að það geti kannski verið lexía okkar fyrir næsta ár og ég heiti samstarfi mínu og míns flokks við ráðherrann um það, ef hann er tilbúinn í slíkt samtal þá erum við til í það. Ég held að það hljóti að vera lykillinn að ýmsum af þessum leiðum til úrbóta sem hann réttilega bendir á að við þurfum að feta.