145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með fjárlögum 2016 minnkar afkomubati ríkissjóðs á milli ára í fyrsta skipti frá hruni. Í þessu sambandi lítum við fram hjá stöðugleikaframlaginu sem á ekki að nýta til reksturs þjónustu ríkisins. Ef við horfum fram hjá því er afkomubatinn að minnka í fyrsta skipti frá hruni og það eru tíðindi.

Þetta eru líka fjárlögin þar sem teknar eru ákvarðanir um að auka ójöfnuð á tekjuhlið með breytingu á tekjuskattskerfinu og einnig með því að halda öldruðum og öryrkjum fátækustum í samfélaginu.

Það á að skera niður á Landspítalanum um 1 milljarð vegna þess að ekki eru settir peningar í fjölda sjúklinga og síðan á að svelta Ríkisútvarpið. Ég fer ekki glöð héðan í dag nema breytingartillögur minni hlutans verði samþykktar. Þá mun náttúrlega léttast á mér brúnin.