145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Það má segja að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé að sérhæfa sig í öfugmælum. Hæstv. forsætisráðherra sagði þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram að þetta væru velferðarfjárlög. Því fer fjarri og sér ekki stað í barnabótum, fæðingarorlofi, almannatryggingum og heilbrigðiskerfinu svo fátt eitt úr velferðarkerfinu sé talið.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson heldur hér áfram og segir að áfram verði haldið að lækka skatta, hagræða og styrkja grunnstoðir. Við hv. þingmann vil ég segja: Þetta eru ósamrýmanleg markmið. (Gripið fram í.)

Ríkisstjórnarflokkarnir geta bjargað sér fyrir horn með því að styðja hér við mjög góðar breytingartillögur minni hlutans.