145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna þessum fjárlögum, fjárlögum vaxandi kaupmáttar og vaxandi jöfnuðar. Á sama tíma og ríkið er rekið án halla, rekið með afgangi, er verið að bæta kjör allra hópa samfélagsins og auka jöfnuð. Það fer því miður ekki oft saman að á sama tíma takist að bæta kjör allra hópa og auka jöfnuðinn í samfélaginu. (Gripið fram í.)

Hvað varðar eldri borgara og öryrkja munu þeir fá sínar bætur nú um áramótin uppfærðar til samræmis við launaþróun, reyndar að því marki að þeir fara fram úr lægstu launum um tíma fram í maí og um næstu áramót er aftur leiðrétt við eldri borgara og öryrkja þannig að þeir fylgi launaþróun. Kaupmáttur bóta hefur þar af leiðandi aldrei verið meiri en nú með þeim fjárlögum sem verið er að ganga frá hér í dag. Vissulega má gera betur en nú sjáum við leiðina til þess, það er að fylgja þeirri stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur fylgt því að kakan hefur aldrei verið stærri og henni hefur aldrei verið jafnar skipt.