145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins gerði áætlanir fyrir næsta ár fyrir löngu síðan á grundvelli þeirrar fjárhæðar sem hér er gerð tillaga um og hafði til þess umboð menntamálaráðherra og formanna stjórnarflokkanna. Síðan hefur komið í ljós að þessir forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa hvorki afl né vilja til að standa við gefin fyrirheit eða tryggja Ríkisútvarpinu eðlilega rekstrarumgjörð. Í staðinn er Ríkisútvarpið látið starfa undir hótunum stjórnarmeirihlutans frá einu ári til annars þar sem ritstjórnarstefna Ríkisútvarpsins er sífellt tengd við fjárveitingar og þar með alið á þeirri hugsun að ef menn beygja sig ekki í duftið verði fjárveitingarnar teknar burt. Þetta er aðför að almannaútvarpi, aðför að lýðræðislegri umræðu í landinu og aðför að því samfélagi sem við viljum hafa.