145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér síðar munum við greiða atkvæði um tillögu stjórnarmeirihlutans en ég vek alveg sérstaklega athygli á því að ef við tökum það fjárframlag sem Ríkisútvarpið fékk á þessu ári og verðbætum það um 2,5% stendur sú tala í 3.754 millj. kr. Ef við horfum á þá tillögu sem nú liggur fyrir ásamt þeim fjármunum sem talið er að muni bætast við vegna fleiri gjaldenda og lítum til þeirra fjárlagatillagna sem komu fram í haust liggur fyrir, verði þetta samþykkt hér á eftir, mun Ríkisútvarpið fá 3.725 milljónir á næsta ári. Ég leyfi mér að segja að það sé á mjög svipuðum slóðum og fjárframlagið á þessu ári.

Það er ekki hægt að halda því fram að í þessu sé fólgin aðför að Ríkisútvarpinu en áfram er auðvitað töluverður rekstrarvandi hjá Ríkisútvarpinu sem birtist meðal annars í hærri launum á þessu ári. Allt þetta hefur verið rætt í (Forseti hringir.) svokallaðri Eyþórsskýrslu sem var hér til umræðu. Mesti rekstrarvandi Ríkisútvarpsins er þekktur, en það er ekki hægt að segja að í þessum fjárlögum sé verið að skera niður. Það er öfugmæli.