145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan um fjárlög sem hefur verið löng hefur ekki síst staðið um nákvæmlega þetta atriði og hún þurfti að vera löng til að draga fram hinn raunverulega vilja stjórnarliða í málinu. Fyrst var nefnilega sagt að lífeyrisþegar nytu sömu kjara og láglaunafólk. Svo fengum við það út úr bæði hv. formanni fjárlaganefndar og hæstv. fjármálaráðherra að það væri sjálfstætt markmið þeirra að passa að lífeyrisþegar væru með lakari kjör en láglaunafólk. (Gripið fram í.)

Síðan var líka haldið fram að breytingarnar um komandi áramót mundu gera lífeyrisþega jafnsetta láglaunafólki. Nú hefur það verið hrakið með tölum. Allt hefur þetta komið í ljós í langri umræðu og núna verður kristaltært að það er einbeittur ásetningur þessarar ríkisstjórnar og þingmanna sem hana styðja að lífeyrisþegar njóti ekki sömu kjara og jafnréttis á við launafólk í landinu. Nú er það ljóst.