145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að meiri hlutinn hafi lagt til að mæta að einhverju leyti viðhaldsþörf Landspítalans en það liggur fyrir að hún er miklu meiri en sem nemur þeim 250 milljónum sem hér eru lagðar til. Það hefur komið fram hjá forsvarsmönnum spítalans að þörf er á 1 milljarði, ekki aðeins til að mæta uppsöfnuðum vanda heldur líka viðhaldsvanda í tiltölulega nýjum byggingum. Markmið okkar ætti að vera að mæta þessari þörf. Það ætti líka að vera markmið okkar að leysa úr rekstrarvanda spítalans sem verður ekki leystur með þeirri viðbótarfjárveitingu sem hér er lögð til til að rýma bráðarými á Landspítalanum þó að auðvitað geri hún sitt gagn.

Af þessum orsökum sitjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hjá. Við styðjum að þessir peningar komi til en við vitum líka að þeir duga ekki til. Það hefði fremur verið ástæða til að samþykkja breytingartillögu okkar og annarra í minni hlutanum áðan um að koma til móts við þessar þarfir til að skapa ekki vanda til framtíðar.