145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmenn sitja hjá þýðir það að þeir eru ekki að samþykkja og ef allir mundu gera það sama færu þessir fjármunir ekki til Landspítalans. Nú fara í viðhald 723 milljónir sem eru mjög há upphæð. Ég held að það sé rétt að upplýsa það sem kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar, þegar menn vísuðu í tölur um að við værum með jafn lága innviðauppbyggingu og Grikkland og Mexíkó voru menn að vísa í fjárlög frá 2013 þegar önnur ríkisstjórn en þessi gerði fjárlögin.

Við leggjum hér sömuleiðis fjármuni í fráflæðisvandann og það er mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um að það (Gripið fram í.) þarf að líta á heilbrigðiskerfið í heild sinni. Það eru mjög góðar fréttir að við höfum svigrúm til að leggja meira fjármagn í það stóra verkefni sem snýr að úrræðum fyrir þá sem eru núna á Landspítalanum (Forseti hringir.) en eiga að vera í öðrum úrræðum.

Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn samþykki þessar tillögur.