145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Af einhverjum óskiljanlegum orsökum hafa sumir hv. þingmenn ýjað að því að óeðlileg vinnubrögð séu hjá hv. fjárlaganefnd þegar hún styrkir ýmislegt sem kemur meðal annars fram þegar menn taka á móti öllum þeim sveitarfélögum sem vilja koma til hv. fjárlaganefndar. Ég verð að viðurkenna að þótt mér finnist eðlilegt að við tökumst á um ýmislegt finnst mér sá málflutningur ekki við hæfi.

Þessi tillaga er frá einum hv. þingmanni stjórnarandstöðunnar og er algjörlega samkynja annarri. Þarna er hv. þingmaður sem þekkir vel til í bæjarfélagi sínu með mjög gott verkefni sem ég held að sé forsvaranlegt og rétt að greiða atkvæði með, og það mun ég gera, en ég skil ekki af hverju sömu þingmenn og leggja fram slíkar tillögur gagnrýna sambærileg vinnubrögð og þeir sýna sjálfir.