145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að hin þunga undiralda í samfélaginu og samfélagslegri umræðu er að skila sér hér. Orð fólks í samfélagsumræðunni sem stundum hafa jafnvel verið kölluð andlegt ofbeldi eru að skila sér hér og réttmætar ábendingar forustu Landspítalans – háskólasjúkrahúss og ýmissa annarra þeirra sem best þekkja til í heilbrigðiskerfinu á Íslandi eru að skila sér. Málflutningur stjórnarandstöðunnar innan húss er að skila sér. Þrýstingur almennings um allt samfélag er að skila sér.

Þess vegna kemur þessi breyting fram milli 2. og 3. umr. Það er ekki nóg að gert og þess vegna sitjum við hjá en við teljum afar mikilvægt að þessi niðurstaða endurspeglar að það skiptir máli að beita andófi. Það skiptir máli að tala skýrt þó að fólk verði fyrir hótunum úti í samfélaginu (Forseti hringir.) þegar það talar skýrt um stöðuna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)