145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

kosning umboðsmanns Alþingis skv. 1. gr. laga nr. 85 1997, um umboðsmann Alþingis, með síðari breytingum, til fjögurra ára, frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2019.

[18:06]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Tekið er fyrir 3. dagskrármálið, kosning umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. gr. laga nr. 85 1997, um umboðsmann Alþingis, með síðari breytingum, til fjögurra ára, frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2019.

Um kosninguna gildir ákvæði 7. mgr. 82. gr. þingskapa sem segir að þegar kjósa á um einn mann séu þeir einir í kjöri sem tilnefndir eru og eigi hreyfa andmælum við því. Enn fremur byggir kosningin á ákvæði í 1. gr. laga um umboðsmann Alþingis, en þar segir að forsætisnefnd Alþingis skuli tilnefna mann við kosninguna. Það hefur forsætisnefnd gert og tilnefnir núverandi umboðsmann, Tryggva Gunnarsson. Aðrar tilnefningar hafa ekki borist og er Tryggvi Gunnarsson því einn í kjöri.

Forseti hefur ákveðið að kosningin verði með atkvæðagreiðslukerfinu eins og þingsköp heimila. Henni má jafna við leynilega skriflega kosningu. Atkvæðagreiðslukerfið verður nú þannig stillt að töflurnar á veggjunum munu aðeins sýna hverjir hafa greitt atkvæði en ekki hvernig þeir greiddu atkvæði. Hið sama gildir um geymsluminni tölvunnar. Þeir sem kjósa Tryggva Gunnarsson ýti á já-hnappinn, en þeir sem vilja skila auðu ýti á hnappinn sem merktur er: Greiðir ekki atkvæði. Nei-takkinn er óvirkur. Gult ljós kviknar við miðhnappinn á borðum þingmanna þegar atkvæði hefur verið greitt, sama á hvorn hnappinn menn hafa ýtt. Eins kviknar aðeins gult ljós á veggtöflum.

 

[Gengið var til kosningar. Atkvæði féllu þannig að Tryggvi Gunnarsson hlaut 43 atkvæði en 9 greiddu ekki atkvæði.]