145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

málefni aldraðra o.fl.

398. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hlutans um breytingu á lögum um málefni aldraðra, lögum um almannatryggingar og lögum um sjúkratryggingar. Þetta frumvarp felur það í sér að fela Sjúkratryggingum að semja jafnt um hjúkrunarrými sem dvalarrými og dagdvöl sem þýðir að verkefni sem áður var á hendi almannatrygginga færist yfir til Sjúkratrygginga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá velferðarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sjúkratryggingum og Tryggingastofnun.

Ég tek fram að meiri hlutinn er sammála því að tíminn til að vinna frumvarpið var skammur, en engu að síður er meiri hlutinn sammála því að leggja til að með frumvarpinu verði lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, sem miða að því að auka heimildir sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða og einfalda um leið stjórnsýslu í samskiptum við stofnanir fyrir aldraða. C-liður 7. gr. er í þá veru að ef vanhöld væru á greiðslu eða ofgreitt eða vangreitt ættu að gilda um það almennar reglur um innheimtu en meiri hlutinn getur ekki fallist á það og leggur þess vegna til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að c-liður 7. gr. falli brott.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Undir nefndarálitið skrifa að öðru leyti sú sem hér stendur, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Sigríður Á. Andersen og Silja Dögg Gunnarsdóttir.