145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

málefni aldraðra o.fl.

398. mál
[18:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þekki þetta mál ekki í þaula. Það hefur verið lítillega rætt í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og nú hefur hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir útlistað málið ágætlega. Eftir því sem ég heyri meira af því, þeim mun fráleitara finnst mér að keyra þetta í gegn núna. Það er seint komið fram og hér er um að ræða breytingar sem við þekkjum ekki í þaula, eins og ég segi, en eru engu að síður grundvallarbreytingar. Það er fráleitt í ljósi þess sem er að gerast innan heilbrigðiskerfisins almennt þar sem tilhneigingin er til, og tilraunir stjórnvalda, að koma sífellt fleiri verkefnum á vegum velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu inn í samningsferli við sjúkratryggingastofnun, færa frágang samninga frá ráðuneyti til sjúkratryggingastofnunar. Ég skil það svo að verið sé að færa þetta inn í þennan farveg.

Eins og ég segi er þetta mál órætt. Það er nýkomið til þingsins, það er ekki búið að fá eðlilegan umsagnarfrest og fráleitt að ætlast til þess að Alþingi samþykki lög á síðustu mínútum þingsins án þess að við fáum umræðu um málið. Á virkilega að gera það? Það er ekki búið að skýra þetta mál rækilega fyrir okkur, þetta hefur ekki farið í eðlilegt umsagnarferli. Við vitum ekki hvað við erum að greiða atkvæði um, ég fullyrði að fæstir hér inni hafi hugmynd um hvað eigi að greiða atkvæði um. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að útlista málið hér og vekja með okkur spurningar. Þær spurningar hafa orðið til þess að ég mun að minnsta kosti fyrir mitt leyti greiða atkvæði gegn þessu máli, ekki vegna þess endilega að ég mundi gera slíkt eftir nánari skoðun, ég gef mér ekkert í því efni, heldur mótmæli ég þessum vinnubrögðum, hæstv. forseti.