145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

málefni aldraðra o.fl.

398. mál
[18:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Samfylkingunni munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu sem kemur til vegna þess að það var mælt fyrir málinu rétt fyrir miðnætti 17. desember og daginn eftir var fjallað um það í velferðarnefnd. Frumvarpið er 15 greinar og þeir gestir sem málið varðaði höfðu varla náð að kynna sér frumvarpið. Það var búið að gera ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu með breytingu á fjárlagaliðum, en heilbrigðisráðherra dró það til 2. desember að leggja málið fram og það var ekki hægt að mæla fyrir því fyrr en 17. desember. Við teljum okkur á engan hátt hafa getað myndað okkur nægilega ígrundaða skoðun til að styðja málið og ákváðum því að sitja hjá.