145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:46]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Tollar eru meinsemd. Tollar eru mjög óheppileg tekjuöflunarleið fyrir ríkið. Tollar hafa þau áhrif að draga úr vöruframboði, hækka vöruverð, draga úr þróun á markaði og að sjálfsögðu eðli sínu samkvæmt hindra aðgengi að markaði. Tollar hafa því neikvæðar afleiðingar fyrir fólkið sem býr í viðkomandi landi.

En tollar hafa áhrif umfram það, þeir vega að og kippa fótum undan frjálsum viðskiptum, sérstaklega og einkum við jafnvel fátækt fólk í þróunarlöndum sem reynir að tryggja lífsviðurværi sitt með frjálsum viðskiptum. Ég er þess vegna ánægð að sjá nokkra samstöðu hér með þessari breytingartillögu um að leggja niður tolla á tilteknar vörur en er um leið líka ánægð að sjá að það er ekki alger samstaða því að þá fengi ég fyrst hland fyrir hjartað, eins og stundum er sagt.