145. löggjafarþing — 62. fundur,  19. des. 2015.

jólakveðjur.

[18:58]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Undanfarnir dagar á Alþingi hafa verið erfiðir fyrir margra hluta sakir eins og þingmenn þekkja best af eigin reynslu. Ég get ekki neitað því að mér hafa orðið það nokkur vonbrigði að okkur skuli ekki hafa tekist að haga þingstörfum í samræmi við starfsáætlun Alþingis. Ég ítreka að ég tel mikilvægt að starfsáætlunin sé marktæk vinnuáætlun Alþingis, það er í allra þágu.

Það hefur verið mér ærið umhugsunarefni hvernig umræða um fjárlagafrumvarp hefur þróast á síðustu árum. Jafnan var það svo að meginfjárlagaumræðan, 2. umr. um fjárlög, stóð 10–15 klukkustundir, hófst gjarnan að morgni og var lokið að kvöldi sama dags eða stóð eitthvað inn í nóttina. Þannig hefur það ekki verið allt frá haustinu 2012 þegar fjárlög voru afgreidd 20. desember, um svipað leyti og núna, og sama þróun hefur í rauninni orðið hvað varðar atkvæðagreiðslur eftir 2. umr. fjárlaga.

Við getum hins vegar fagnað því að orðið hefur jákvæð þróun á öðrum sviðum fjárlagaafgreiðslunnar. Við höfum þannig á síðustu árum orðið sátt um ákveðinn ramma um 1. umr. fjárlaga sem hefur gert þá umræðu mun markvissari en verið hafði áður. Ég vil því nota þetta tækifæri til að velta því upp að við notum komandi vetur til að íhuga með hvaða hætti við gætum gert síðari umræður fjárlaganna markvissari, stuðlað að virkum skoðanaskiptum en jafnframt skapað eðlilegt svigrúm fyrir ítarlegar umræður um það grundvallarplagg sem fjárlögin eru og öllum er ljóst.

Við þinglok þann 3. júlí sl. vék ég að umræðum á Alþingi almennt. Í þeirri ræðu sagði ég:

„Öll vitum við að bæta þarf og skipuleggja betur umræður í þingsal, þ.e. þann hluta þingstarfanna sem er almenningi sýnilegur. Það þýðir þó alls ekki að skera eigi umræður niður við trog. Fátt jafnast nefnilega á við góðar og efnisríkar umræður. Þetta á ekki síst við um umræður þar sem menn með ólík sjónarmið takast á, jafnvel af hörku. Það er enda eðlilegt þar sem við erum fólk með ólíkar skoðanir og hugmyndir og Alþingi á vitaskuld að vera virkur vettvangur alvörupólitískrar umræðu. Því er hins vegar ekki að neita að allt of oft saknaði ég slíkra umræðna nú í vetur.

Það er ekkert að því að menn taki stórt upp í sig í ræðustólnum, tali svo undan svíði, orðin úr ræðustólnum komi blóðinu á hreyfingu, menn fari með himinskautum og kalli fram í af hnyttni þegar það á við. En slíkt á ekkert skylt við fúkyrðaflaum, uppnefni, svigurmæli og meiðandi ummæli. “

Við þessi orð frá liðnu sumri þarf ég engu að bæta. Umræður síðustu daga gera það hins vegar að verkum að ég tel ástæðu til að árétta þessi sjónarmið hér og nú.

Ég vil við þetta tækifæri þakka varaforsetum fyrir ánægjulega og góða samvinnu um stjórn þingfunda. Jafnframt þakka ég formönnum þingflokka fyrir lipurt og gott samstarf og fyrir það traust sem jafnan ríkir manna á meðal á þeim vettvangi

Í lok þessa síðasta þingfundar ársins 2015 færi ég þingmönnum öllum, ráðherrum, svo og starfsfólki Alþingis, kærar þakkir fyrir störf þeirra í þjóðarþágu á vettvangi Alþingis og óska þeim öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar. Ég vona að jólahátíðin verði okkur sá tími friðar og fögnuðar sem er fólginn í boðskap jólanna.

Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýárskveðjur.