145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

niðurstaða vinnu stjórnarskrárnefndar.

[13:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kýs að túlka orð hæstv. forsætisráðherra með þeim hætti að hann gefi fyrirheit um að stjórnarmeirihlutinn komi með tillögur um hvað hann treystir sér til að gera. Þetta er auðvitað ekki þannig að minni hlutinn sitji aðgerðalaus. Það liggur bara fyrir núna að það sem háir starfi nefndarinnar er að þeir sem hafa meiri hluta á Alþingi hafa ekki komið sér saman hvað þeir treysta sér til að gera eða sett það skýrt fram í nefndinni. Eftir því er nú beðið.

Við höfum heldur ekki endalausan tíma. Ef nýta á breytingarákvæðið þarf þjóðaratkvæðagreiðsla að geta farið fram áður en þing hefst næsta haust svo að þetta mál fari ekki að tætast inn í umræður á kosningavetri. Þess vegna hefur þingið aðeins fáeinar vikur til þess að vinna málið héðan í frá. Það er því orðið mjög brýnt.

Ég vil brýna hæstv. forsætisráðherra til að leggja áherslu á það að af hálfu fulltrúa stjórnarmeirihlutans í nefndinni komi skýr svör um hvað meiri hlutinn er tilbúinn að leggja til. Það væri auðvitað sögulegt ef við næðum að tryggja þjóðinni rétt til að kalla mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og tryggja ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá. Það væri ferðarinnar virði. Til þess þarf stjórnarmeirihlutinn að fara að gera upp við sig: Vilja þeir gera þetta eða ekki?