145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

nýjungar í opinberu skólakerfi.

[13:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins við hæstv. menntamálaráðherra um orð sem hann lét falla á dögunum þegar hann var við opnun nýs smáforrits sem aðstoðar við lestrarnám þar sem hæstv. ráðherra sagði, samkvæmt Viðskiptablaðinu, að skólakerfið sjálft mundi ekki leysa þennan vanda, opinbera kerfið væri ekki svo gott í að koma með nýjungar og raunar væri það frekar lélegt í því, eins og haft var eftir hæstv. ráðherra. Nú veit ég ekki hvort Viðskiptablaðið hefur þetta nákvæmlega rétt eftir, en mig langaði að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann teldi svo vera að hið opinbera skólakerfi væri mjög lélegt að koma með nýjungar, hvort hann teldi það rangan skilning, sem ég hef til að mynda, að skólar væru í raun og veru miðstöðvar þróunarstarfs og þar færi einmitt fram mikil nýsköpun.

Ef hæstv. ráðherra telur hið opinbera almennt lélegt að koma með nýjungar eða hvort það var bara hið opinbera skólakerfi, hvaða gögn hefur hann fyrir sér í því? Þegar við skoðum sögu nýsköpunar, rannsókna og þróunar er iðulega um að ræða samvinnu hins opinbera og einkageirans. Það dugir bara að nefna tæki, sem mjög margir þingmenn eiga, sé ég á borðum, svokallaða snjallsíma sem voru ekki síst þróaðir vegna tækniþróunar hjá opinberum aðilum vestan hafs. Við getum tekið dæmi aftar úr sögunni. Allt sem lýtur að netþróun og öðru — þar hefur hið opinbera iðulega haft mjög mikið framlag. Skólakerfið er enn eitt dæmi þar sem hið opinbera hefur að sjálfsögðu komið með gríðarlega margar nýjungar. Ég hef ekki tíma til að telja þær allar upp, nýjungar í kennslu, lestrarkennslu, myndlæsi, útikennslu, náttúruskilningi, hvert sem við horfum.

Hæstv. ráðherra hefur hins vegar meira talað fyrir því að beina skólakerfinu inn á braut þar sem er meira lagt upp úr miðstýrðum prófunum, árangursmælingum og skimunum. Ég veit ekki hvort hann telur það vænlegt til nýjunga. En hvaða gögn hefur hæstv. ráðherra fyrir sér í því þegar hann segir að hið opinbera skólakerfi sé lélegt í nýjungum, eða átti hæstv. ráðherra kannski við eitthvað annað þegar hann sagði þetta?

Telur hæstv. ráðherra virkilega að rekstrarform þess staðar þar sem maður vinnur ráði því hvort maður sé hugmyndaríkur og nýskapandi í starfi? Snýst þetta ekki, herra forseti, um fagmennsku? Hvað segir hæstv. ráðherra um það?