145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

atvinnuþróun meðal háskólamenntaðra.

[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta var nú óvenjudrungaleg lýsing frá hv. þingmanni sem lítur yfirleitt á björtu hliðarnar. En ég held að í þessu tilviki hafi hann ekki ástæðu til að vera jafn svartsýnn og fyrirspurnin gaf til kynna. Ég er sammála honum um mikilvægi þess að við verjum áfram samkeppnishæfni landsins og stuðlum að sem mestum fjölbreytileika í tækifærum. Sá fjölbreytileiki hefur svo sannarlega verið að aukast og er orðinn býsna mikill og kostir þess að búa hér býsna miklir í samanburði við nánast öll önnur lönd í heimi, hvorki meira né minna, sama hvaða alþjóðlega samanburð við notum til að styðjast við.

Hvað varðar fólksfjölgun á Íslandi þá hefur hún haldið áfram. Fólki heldur áfram að fjölga á Íslandi, meðal annars með komu erlendra fræðimanna sem kenna við háskóla og vinna hjá fyrirtækjum við rannsóknir og þróunarstörf og í mörgum tilvikum flytur þetta fólk hingað ekki aðeins vegna tækifæranna sem liggja í þessum störfum heldur vegna þess að það vill búa í íslensku samfélagi, því líður vel hér, Ísland hefur upp á mjög margt að bjóða og er eftirsóknarverður staður til þess að setjast að.

Hvað varðar atvinnuleysi þá er það ekki rétt sem hv. þingmaður nefndi að atvinnuleysi væri að aukast meðal háskólamenntaðs fólks. Þvert á móti. Atvinnuleysi hefur farið mjög hratt minnkandi á Íslandi síðustu missiri og reyndar síðustu árin og er miklum mun minna en í samanburðarlöndunum. Á Spáni, svo ég nefni eitt dæmi, er hins vegar gríðarlega erfið staða varðandi atvinnu ungs fólks, ekki hvað síst háskólamenntaðs fólks. Það sama á reyndar við í fjölmörgum Evrópulöndum. Ég gæti nefnt mjög mörg dæmi um lönd þar sem það er nánast ómögulegt fyrir ungt, vel menntað fólk að fá vinnu í sínu heimalandi. Um 50% Spánverja undir 25 ára aldri eru atvinnulausir. Það sama á við um Grikkland og atvinnuleysi er raunar þjóðarmein í mjög mörgum Evrópulöndum, öfugt við stöðuna á Íslandi þar sem okkur hefur tekist að viðhalda mjög háu atvinnustigi auk þess að atvinnulífið verður fjölbreytilegra með hverju árinu sem líður.