145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

afnám verðtryggingar og þjóðaratkvæðagreiðslur.

[14:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég óska þingheimi til hamingju með að vera kominn aftur til starfa eftir jólahlé. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort honum finnist ekki eðlilegur farvegur fyrir kosningaloforð hans og flokks hans fyrir síðustu kosningar um afnám verðtryggingar vera þingmál frá honum sjálfum sem yrði til lykta leitt hér í þingsal. Af hverju hefur hæstv. ráðherrann ekki gert það enn þá?

Mig langar að vekja athygli hæstv. ráðherra á því að þingið hefur ekki borið gæfu til að virða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem það sjálft efndi til á síðasta kjörtímabili um nýja stjórnarskrá. Ef svo færi að hæstv. ráðherrann mundi hefja þá vegferð að boða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám verðtryggingar, hvenær sér hæstv. ráðherra fyrir sér að slík atkvæðagreiðsla færi fram? Er ráðherrann byrjaður að undirbúa það ferli? Hvenær mun þingmálið verða lagt fram?

Mig langar líka í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra vill þjóðaratkvæðagreiðslur í auknum mæli fá álit hans á 66. gr. stjórnarskrár þeirrar sem lögð var undir dóm þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og samþykkt í þeirri atkvæðagreiðslu sem undirstaða fyrir samfélag okkar, en greinin fjallar um þingmál að frumkvæði kjósenda. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram frumvarp til laga eða tillögu til þingsályktunar á Alþingi. Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi. Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því að málið hefur verið afhent Alþingi.“

Af hverju er þessa grein ekki að finna í tillögum stjórnlaganefndar sem er á forræði hæstv. forsætisráðherra?