145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[14:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka ágæta fyrirspurn. Stutta svarið er: Það liggur ekkert á að selja bankann fyrr en menn eru ásáttir um að það sé æskilegt fyrir eigandann. Ég minni hins vegar á að það hefur verið til staðar heimild í fjárlögum frá því snemma á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður var í stjórnarmeirihluta og ef ég man rétt formaður efnahags- og viðskiptanefndar til þess að selja hlut ríkisins í bankanum. Það er hins vegar ekki ríkisstjórnin sem fer með þann hlut eða þingið beint, það er Bankasýsla ríkisins sem heldur utan um þetta. Ég efast ekki um að Bankasýslan muni meta það hvenær og með hvaða hætti æskilegt kann að vera að selja hlut í bankanum. Menn lögðust á eitt á sínum tíma, stjórnarandstaðan, við að verja Bankasýsluna og töldu mikilvægt að halda óbreyttu fyrirkomulagi hvað það varðaði. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hv. þingmaður hafi enn trú á að Bankasýslunni sé treystandi fyrir þessu verkefni.