145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[14:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú er ég alveg hættur að skilja. Styður forsætisráðherra Íslands það að hlutur ríkisins í Landsbanka Íslands, 30%, verði seldur á yfirstandandi ári eða ekki? Finnst forsætisráðherra Íslands það vera skynsamleg hugmynd og góð varðstaða um hagsmuni þjóðarinnar og skattgreiðenda að selja hlutinn á þessu ári? Tekur hann undir með formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónssyni, um að þetta sé óskynsamlegur tímapunktur til þess að ráðast í þá sölu? Tekur hann undir með formanni efnahags- og viðskiptanefndar um að það sé miklu betri bisness að eiga hlutinn en að selja hann? Þegar hann segir: Þetta er góð spurning, er hann þá að lýsa því yfir við Alþingi að hann deili efasemdum formanns efnahags- og viðskiptanefndar? Kallar það ekki á að forsætisráðherra beiti sér til að koma í veg fyrir að þetta bresti á hér á árinu þar sem hann er verkstjóri ríkisstjórnarinnar og formaður þess stjórnarflokks sem leiðir ríkisstjórnina? Þetta mál verður auðvitað aldrei að veruleika nema með vilja og aðkomu Alþingis.